Um heillastjarna.is

Heillastjarna sérhæfir sig í hugleiðslu- og sjálfstyrkingarefni fyrir börn og ungmenni og heldur úti vefsíðu með miklu úrvali af ókeypis hugleiðslum auk þess að bjóða upp á ýmis konar námskeið fyrir kennara og starfsfólk skóla, börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Vefsíðunni er ætlað að styðja fjölskyldur og skóla í því að gera hugleiðsluiðkun að föstum lið daglega.

Höfundur efnis heillastjarna.is er Stefanía Ólafsdóttir en hugmyndin að vefsíðunni kviknaði í kjölfar útgáfu bókarinnar Undir heillastjörnu – hugleiðslur og heillakort fyrir börn og ungmenni sem Stefanía skrifaði og kom út árið 2017. Bókin rataði inn á fjölmörg heimili og skóla og hefur verið þýdd á ensku, spænsku og hollensku.

Áhugi á hugleiðslu fyrir börn og unglinga hefur aukist gífurlega undanfarin ár, enda hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á margþættan ávinning hugleiðsluiðkunar og samfélagið sem við lifum í beinlínis kallar á það að við gefum okkur og börnunum okkar meiri tíma og rými til að slaka á og næra sjálfið.

Tónlistin í hugleiðslunum er eftir Friðrik Karlsson og kunnum við honum bestu þakkir fyrir að fá að nota tónlistina. Hægt er að kynna sér tónlist Friðriks á Spotify HÉR.

Nokkur orð frá höfundinum

Í fjöldamörg ár hefur hugleiðsla verið órjúfanlegur þáttur af lífi mínu. Hver morgunn hefst á endurnærandi stund með sjálfri mér þar sem ég stilli hug og hjarta inn á daginn sem í vændum er og ég hreinlega gæti ekki án þessarar dýrmætu stundar verið því hún leggur algjörlega línurnar fyrir daginn.

Fyrir mér er hugleiðslan jafn mikilvæg sálinni eins og maturinn sem við borðum er líkamanum – ef ekki mikilvægari!

Sem barn og unglingur var ég haldin mikilli fullkomnunaráráttu og kvíða henni tengdri. Ég velti því stundum fyrir mér hvort lífið hefði ekki verið auðveldara á þessum uppvaxtarárum hefði ég kunnað aðferðir til að vera tengdari sjálfri mér og sáttari í eigin skinni.

Á þeim árum hefði verið gagnlegt að geta skilið tengslin á milli hugsana og tilfinninga til að geta gert hugann að góðum vini.

Það var uppí háloftunum, í flugvél á leið heim frá hugleiðslunámskeiði í New York fylki fyrir nokkrum árum síðan, sem hugmyndin byrjaði að fæðast. Ég horfði út um gluggann á fagurt skýjafarið og upplifði innra frelsi og gleði. Það var þá sem þeirri hugsun laust niður að ég ætti að vinna með börnum. Að ég ætti að nýta þá reynslu sem ég hafði safnað að mér í gegnum árin til að hjálpa börnum og unglingum að finna innra frelsi, gleði og sátt. Að kenna þeim aðferðir til að nýta hugarorkuna til góðs og hefja sig til flugs huglægt.

Árið 2017 skrifaði ég bókina Undir heillastjörnu sem samanstendur af hugleiðslum og kortum með jákvæðum staðhæfingum fyrir börn og ungmenni. Árið 2018 tók ég alþjóðlega viðurkennt námskeið í barnahugleiðslukennslu (Connected Kids) og hef síðan þá haldið áfram að halda námskeið og þróa barnahugleiðsluefni.

Auk þess að vera menntaður tónlistarmaður er ég með grunnskólakennararéttindi, hef starfað bæði sem umsjónar- og tónmenntakennari og staðið fyrir  tilraunaverkefni í grunnskóla þar sem ég kenndi börnum á öllum aldursstigum hugleiðslu. Einnig leiðbeini ég fullorðnum á hugleiðslunámskeiðum í hugleiðsluskólanum Lótushúsi og sæki árlega hugleiðslunámskeið á Indlandi til þess að halda áfram að dýpka minn eigin reynsluheim sem ég miðla síðan áfram.

Það er einlæg löngun mín að þeir sem nýti sér Heillastjörnuefnið styrki sambandið við eigið sjálf og uppgötvi þann töfraheim sem felst innra með hverju og einu okkar.

Njótið vel!

Stefanía Ólafsdóttir