Leiðbeiningar og góð ráð

Hér eru leiðbeiningar og góð ráð fyrir iðkunina. Ef þú finnur ekki svör við spurningum þínum hér hvetjum við þig til að senda fyrirspurn á heillastjarna@heillastjarna.is.

Notalegt andrúmsloft

Þegar við hugleiðum getur umhverfið haft töluvert mikið að segja. Það þarf alls ekki að kosta mikla fyrirhöfn að skapa notalegt, styðjandi andrúmsloft en það getur hjálpað barninu að upplifa öryggi og slökun.

Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga. Ekkert af þessu er nauðsynlegt til að geta hugleitt en getur gert upplifunina ánægjulegri.

 • Minnkaðu birtuna í herberginu og kveiktu á kerti eða lampa til að skapa hlýlega, notalega birtu.

 • Reyndu að velja stað þar sem ekki er mjög mikil óreiða í umhverfinu.

 • Sum börn njóta þess að finna góða, slakandi lykt í rýminu þar sem er hugleitt. Hana má kalla fram t.d. með ilmkjarnaolíum eða ilmkertum.

 • Mikilvægt er að barninu sé ekki kalt og það fari sem best um það. Tilvalið er að hafa teppi og púða til taks eftir þörfum.

 • Sumir velja að hugleiða alltaf á sama stað í húsinu og útbúa þá lítið hugleiðsluhorn með myndum, lömpum og öðru sem minnir á hugleiðsluna og styður við upplifunina.

Hvað ef barnið vill ekki hugleiða?

Það er aldrei hægt að fara fram á eða krefjast þess að börn (eða raunar hver sem er) hugleiði. Við myndum sjálf ekki vilja að einhver neyddi okkur til að hugleiða og það væri auk þess dæmt til að mistakast. Það er auðvitað hverri og einni manneskju í sjálfsvald sett hvað hún vill hugsa en við getum kynnt barnið fyrir hugleiðslu og lagt okkar af mörkum til að gera hugleiðslustundina aðlaðandi í huga barnins.

Hér eru nokkrar tillögur:

 • Skrifaðu nöfnin á hugleiðslunum á miða og leyfðu barninu að draga einn miða á dag. Sú hugleiðsla er þá iðkuð þann daginn.

 • Ef barnið fæst ekki til að hugleiða geturðu prófað að bjóða því að búa til sína eigin hugleiðslusögu og leiða þig í hugleiðslu. Mörgum börnum finnst mjög spennandi að mega leiða einhvern annan inn í hugleiðsluupplifun og það kemur oft á óvart hversu hugmyndarík þau eru.

 • Komdu þér upp kassa með litlum fylgihlutum sem gera hugleiðsluna meira spennandi. Þetta geta t.d. verið fjaðrir í ýmsum litum, steinar, lyklar og annað smádót. Mörgum börnum finnst gott að halda á einhverju í hendinni á meðan þau hugleiða, það hjálpar þeim að halda ró og einbeitingu. Einnig geta hlutirnir hjálpað barninu að sjá fyrir sér það sem hugleiðslan fjallar um ef þeir eru valdir með þema hugleiðslunnar í huga. Þetta á sérstaklega við um börn með sérþarfir, s.s. ADHD og þau sem eru á einhverfurófi.

Samræður

Það er góð regla að barnið tali ekki á meðan á hugleiðslunni stendur en mikilvægt að gefa því tíma eftirá til að tjá sig um upplifunina. Mörg börn kunna virkilega að meta að vera sýnt áhuga á þennan hátt og oftar en ekki koma þau með mjög áhugaverðar vangaveltur um viðfangsefnið.

Hér eru nokkrar tillögur að spurningum:

 • Hvað sástu fyrir þér í hugleiðslunni?

 • Hvernig leið þér í hugleiðslunni?

 • Kom eitthvað sem þú sást eða upplifðir þér á óvart?

 • Ef hugleitt er á eiginleikana í flokkunum Jákvæð gildi er tilvalið að ræða betur um eiginleikann sem hugleitt var á. Spyrja t.d. hvað eiginleikinn þýði, hvernig hann birtist í fari fólks og hvort að barninu finnist hann mikilvægur.