Námskeið

Í tengslum við Heillastjörnuefnið eru í boði námskeið og fjölskyldustundir sem eru til þess fallnar að kveikja áhuga barnanna á hugleiðslu og veita foreldrum stuðning og innblástur fyrir áframhaldandi iðkun á heimilinu.

Frelsi til að vera ég  – sumarnámskeið

Tímasetning: 1. – 5. júlí 2024 (5 dagar)

Eldri hópur kl. 9:30-12:00 – fyrir börn sem eru að ljúka 5.-7. bekk
Yngri hópur kl. 13:00-15:30 – fyrir börn sem eru að ljúka 1.-4. bekk

Verð: 27.900kr

Staðsetning: Námskeiðin verða haldin í hlýlegum og fallegum húsakynnum Dalskóla í Reykjavík. Þaðan er stutt í fallega náttúru og ef veður leyfir munum við stunda hugleiðslu og listsköpun í náttúrunni.

Á námskeiðinu verður unnið að því að efla sjálfstraust, sjálfskærleik, slökun og innra jafnvægi í gegnum hugleiðslu, sjálfstyrkjandi leiki og kórsöng. Börnin munu læra ýmsar aðferðir sem geta gagnast þeim við að byggja upp jákvæða sjálfmynd og takast á við streitu. Námskeiðið getur hentað öllum börnum en ekki síst þeim sem glíma við lágt sjálfsmat, kvíða eða innra óöryggi. Lögð verður mikil áhersla á að skapa hlýlegt andrúmsloft þar sem traust og virðing eru í fyrirrúmi. Í lok námskeiðs verður foreldrum boðið á notalega uppskeruhátíð.

Kennarar: Stefanía Ólafsdóttir og Harpa Þorvaldsdóttir

Harpa og Stefanía eru báðar grunnskólakennarar með mikla reynslu af því að starfa með börnum. Stefanía skrifaði hugleiðslubarnabókina Undir heillastjörnu, er höfundur Heillastjörnuvefsíðunnar og hefur haldið fjölmörg námskeið fyrir börn og fagfólk sem starfar með börnum. Harpa er tónlistarkennari og söngkona og leiðir þessa dagana verkefnið Syngjandi skóli á vegum Reykjavíkurborgar. Þeim er báðum mjög umhugað um að mæta börnunum á þeim stað sem þau eru og styðja þau við að laða fram það besta í sjálfum sér.

SKRÁNING – SUMARNÁMSKEIÐ

Að kenna börnum hugleiðslu – námskeið fyrir fagfólk og foreldra

Næstu námskeið verða haldin í september 2024, nánari tímasetning verður auglýst þegar nær dregur en velkomið að senda pósta á heillastjarna@heillastjarna.is ef þú vilt fá sendar upplýsingar um leið og dagsetning liggur fyrir.

Kennari: Stefanía Ólafsdóttir
Staðsetning á námskeiðinu 18. apríl: G-fit, Kirkjulundi 19, 210 Garðabæ
Námskeiðið er 2,5 klst að lengd.
Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður!

Verð: 11.900kr
Hægt er að sækja um styrk fyrir námskeiðsgjöldum hjá stéttarfélögum. Kannaðu þinn rétt innan þíns stéttarfélags.

Á námskeiðinu mun höfundur Heillastjörnuvefsins fjalla um ýmsar leiðir til að kynna hugleiðslu fyrir börnum, m.a. 7 skrefa uppbyggingu (hreyfing – leikur – teygjur – nudd – öndun – jákvæðar staðhæfingar – hugleiðsla) þar sem unnið er með mismunandi þætti sem stuðla að vellíðan og margskonar sjálfstyrkingu barnanna. Sérstök áhersla er lögð á það hvernig hægt er að tvinna hugleiðsluiðkun inn í grunnskóla- og frístundastarf barna en annað fagfólk sem starfar með börnum sem og foreldrar/forráðmenn geta einnig haft gagn af námskeiðinu. Að námskeiðinu loknu fá þátttakendur sent yfirlit yfir æfingarnar til að geta nýtt sér þær sem best í framhaldinu.

Stefanía hefur mikla reynslu af hugleiðslukennslu barna, hefur haldið fjölmörg námskeið og kennt hugleiðslu í grunnskóla. Hún er menntuð sem grunnskólakennari og hefur einnig sótt alþjóðleg námskeið til að sérhæfa sig í hugleiðslukennslu barna fyrir fagfólk. Hún heldur úti Heillastjörnuvefnum en þar er að finna mikið magn af ókeypis hugleiðsluefni fyrir börn og nýta fjölmargir grunnskólar og fjölskyldur sér efnið með mjög góðum árangri.

Umsögn þátttakanda af fyrra námskeiði haust 2023
Stefanía leiddi notalegan og nytsamlegan tíma þar sem ég kynntist fjölbreyttum hugleiðsluæfingum fyrir allan aldur. Ég hef notað hugmyndir hennar í kennslu í grunnskólum sem hafa slegið í gegn. Þetta er mikilvægt verkfæri fyrir unga sem aldna, séstaklega núna í hraða samfélagi okkar og getur stórbætt gæði okkar í lífinu. Stefanía gerir æfingarnar svo skemmtilegar, hnitmiðaðar og árangursríkar.

SKRÁNING – NÁMSKEIÐ FYRIR FAGFÓLK OG FORELDRA

Námskeið fyrir starfsfólk grunnskóla

Í tengslum við Heillastjörnuvefinn er boðið upp á námskeið fyrir kennara þar sem Stefanía Ólafsdóttir, höfundur Heillastjörnuefnisins og grunnskólakennari, mætir á staðinn (eða heldur fjarnámskeið fyrir skóla á landsbyggðinni) og fjallar um mismunandi leiðir til að nýta vefinn í skólastarfinu. Hluti námskeiðsins felst í fræðslu sem getur nýst kennurunum til að hlúa vel að sjálfum sér og sinni andlegu heilsu. Sjá nánar um fyrirkomulagið hér:

NÁNARI UPPLÝSINGAR