Sterk sjálfsmynd og innra frelsi
Sjálfstraust – jákvæðni – útgeislun
Hvernig getur hugleiðsla byggt upp sterka sjálfsmynd?
Hugleiðsla veitir barninu tækifæri á að færa athyglina frá öðru fólki og umhverfinu og að sjálfu sér. Sterk sjálfsmynd byggist ekki á afrekum, svo sem að standa sig vel í skóla eða íþróttum. Sjálfsmynd byggð á slíku getur verið afar brothætt því að um leið og á móti blæs og barninu mistekst á einhvern hátt er það fljótt að byrja að rífa sig niður. Sönn sjálfsmynd byggist á jákvæðum eiginleikum barnsins s.s. kærleika, hugrekki, umhyggjusemi og heiðarleika og er ekki háð ytri kringumstæðum eða afrekum. Þegar barnið lærir að þekkja verðleika sína betur öðlast það meira sjálfstraust og þá fer álit annarra einnig að skipta það minna máli.
Í orkustöðvafræðunum tengist sjálfsmyndin þriðju orkustöðinni, sólar plexus. Sé þessi orkustöð líkamans í góðu jafnvægi upplifir barnið frelsi til að vera það sjálft og á auðvelt með að vera sveigjanlegt og opið í samskiptum við aðra. Sé þriðja orkustöðin hins vegar í ójafnvægi reiðist barnið auðveldlega ef það fær ekki sínu framgengt, sveiflast á milli vanmáttarkenndar og hroka, er óöruggt með sjálft sig og tekur gagnrýni annarra illa.
Í sjálfsmyndarhugleiðslunum í sjálfstyrkingarflokknum upplifir barnið sína bestu eiginleika og þannig styrkjast þeir og sjálfstraustið eykst. Einnig er unnið með það að sleppa tökunum/stjórnsemi í gegnum hugleiðslu og upplifa frelsið sem í því er fólgið.
Merki þess að sterkri sjálfsmynd sé ábótavant:
Barnið…
-
hefur lítið sjálfstraust og dæmir sig
-
upplifir sig sem fórnarlamb
-
er neikvætt í viðmóti
-
hefur mikla stjórnunarþörf
-
er mjög viðkvæmt fyrir gagnrýni annarra
Merki um góða sjálfsmynd:
Barnið…
-
hefur gott sjálfstraust
-
er heiðarlegt
-
er vingjarnlegt og opið í samskiptum við aðra
-
býr yfir bjartsýni
-
býr yfir umburðarlyndi
-
hefur góðan viljastyrk