Vika 1
Fimmblaðablómið
Umræðuefni eftir hugleiðsluna: Gastu fundið fyrir mjúka gula ljósinu í maganum? Hvernig voru blöðin fimm á blóminu þínu á litinn? Hvaða fimm jákvæðu eiginleika táknuðu blöðin?
Bjóddu barninu að gera mynd af fimmblaðablóminu eftir hugleiðsluna. Hægt er að lita, mála eða gera klippimynd þar sem blöðin fimm eru klippt út úr mismunandi litum pappír og límd í kringum gula miðju blómsins. Þegar barnið er búið að gera myndina af blóminu skaltu biðja það að velja fimm jákvæða eiginleika og skrifa einn inn í hvert blað á blóminu. Tilvalið er að gera lista yfir alla þá jákvæðu eiginleika sem ykkur dettur í hug svo barnið fái hugmyndir að eiginleikum. Ef barnið á erfitt með að koma auga á jákvæðu eiginleikana í sjálfu sér er tilvalið að foreldrar/kennarar hjálpi barninu að koma auga á styrkleika sína. Spilið rólega hugleiðslutónlist á meðan til að halda notalegri stemningu.
Smelltu hér fyrir verkefnablað fyrir myndina:
Fimmblaðablómið
Vika 2
Kóngurinn sem öllu réði
Hugleiðsla vikunnar er aðeins frábrugðin öðrum Heillastjörnuhugleiðslum því hún er í formi nokkurs konar ævintýris þar sem við setjum okkur í spor konungs sem öllu réði og gat ekki sleppt tökunum.
Börn (og raunar fullorðnir líka) sem hafa ekki mjög sterka sjálfsmynd hafa oft ríka þörf fyrir að stýra umhverfinu. Stjórnsemi getur sprottið upp frá innra óöryggi þar sem barnið vill hafa allt eftir sínum geðþótta og er þá jafnvel ómeðvitað að reyna að skapa innra öryggi. Slípt skapar hins vegar innri spennu og reiði sem veldur barninu vanlíðan og hefur neikvæð áhrif á samskipti þess við aðra. Í sögunni lærir kóngurinn að sleppa stjórnsemi og upplifa frelsið sem felst í því að taka lífinu eins og það er og taka því óvænta opnum örmum. Skilaboðin eru þau að við getum í raun aldrei haft stjórn á umhverfinu en við getum hins vegar alltaf ríkt yfir eigin huga.
Heimaverkefni fyrir vikuna
1. Gerið lista yfir 7 jákvæðar hugsanir(setningar) sem lýsa líðan sem barninu finnst eftirsóknarverð.
Dæmi um hugsanir:
Ég er hamingjusamur/hamingjusöm
Ég er jákvæð/ur
Ég er þakklát/ur fyrir lífið mitt
Ég er friðsæl/l
Ég er örugg/ur
Ég er hugrakkur/hugrökk
Ég hef mikinn innri styrk
Ég er góður vinur
o.s.frv.
2. Skrifið hugsanirnar á miða sem barnið getur skreytt ef það vill og bjóðið barninu að draga einn miða á dag.
3. Æfingin felst síðan í því að staldra við 1-3 sinnum yfir daginn, loka augunum og reyna að halda bara þessari einu hugsun í huganum í eina mínútu (fínt að stilla símann og láta hann hringja þegar mínútan er liðin). Flestum börnum finnst þetta skemmtileg áskorun og tilvalið að fullorðna fólkið taki þátt í þessari tilraun líka, gerir því ekki síður gott 🙂
Það getur haft gífurlega jákvæð áhrif á líðanina að hugsa meðvitað jákvæðar hugsanir sem þessar nokkrum sinnum yfir daginn og getur hjálpað barninu að skapa sterka sjálfsmynd.
Vika 3
Jákvæðar hugsanir
Í hugleiðslu vikunnar nærum við hugann á jákvæðum hugsunum. Dagana 15. – 31. mars munu jákvæðar staðhæfingar sem styrkja sjálfsmyndina einnig birtast daglega á Instagram og Facebooksíðu Heillastjörnu sem tilvalið er að skoða og ræða um við börnin.
Hér fyrir neðan er myndband við hugleiðsluna:
Vika 4
Í hugleiðslu vikunnar heimsækir barnið speglasal sem birtir því innri styrkleika; hugrekki, öryggi, kærleik, gleði og sjálfsvirðingu. Hugleiðslan kemur í tveimur útgáfum, annars vegar styttri útgáfu til að hlusta á yfir daginn, hins vegar lengri útgáfu sem hentar vel fyrir svefninn. Njótið vel!
Speglasalurinn
Speglasalurinn – fyrir svefninn
Sjálfsvirðingarkórónan – föndur eftir hugleiðsluna
Eftir að hafa hlustað á hugleiðsluna um speglasalinn er tilvalið að ræða við barnið um sjálfsvirðingu: Hvað er sjálfsvirðing? Hvað kemur í veg fyrir að við séum með sjálfsvirðingu? Er barnið ánægt með sjálft sig? o.s.frv.
Bjóddu síðan barninu að búa til sjálfsvirðingarkórónuna sem það sá fyrir sér í hugleiðslunni og skrifa á hana alla þá jákvæðu eiginleika sem það sér í sjálfu sér. Um að gera að vera skapandi og skreyta kórónuna með því sem til fellur, t.d. klippimyndum úr tímaritum, efnisbútum, perlum, fjöðrum o.s.frv.
Einnig er hægt að bjóða barninu að teikna/mála mynd af sér í speglasalnum í fullum skrúða, í rauðu hugrekkisstígvélunum, með bláu verndarskikkjuna, græna kærleikshjartað framan á sér, gimstein gleðinnar á enninu og sjálfsvirðingarkórónuna á höfðinu. Barnið getur síðan bætt við fleiri eiginleikum ef það vill og teiknað sinn eigin ofurhetjubúning þar sem styrkleikar eru í lykilhlutverki.