Þema Heillastjörnu í maí 2020

Núnavitund í daglegu lífi

Við mælum eindregið með því að þú kynnir þér umfjöllunina og leiðbeiningarnar hér áður en farið er í æfingarnar:

Lesa nánar hér um núvitundariðkun með börnum

Vika 1

Núnavitundaræfing 1 – Hlutir í poka

Markmiðið með þessum leik er í raun ekki það að barnið geti giskað rétt á hlutinn í pokanum heldur að fá það til að staldra við, beita skynfærum sínum á nýjan hátt og vera til staðar í augnablikinu.

Settu marga litla hluti sem eru áhugaverðir í laginu í poka. Bjóddu barninu að setja hendina ofan í pokann og þreifa á hlutnum án þess að sjá hann. Barnið á síðan að lýsa hlutnum (lögun og áferð) í a.m.k. 3-4 setningum án þess að giska á hvaða hlutur þetta er. Að lokum giskar barnið á hlutinn. Ef börnin eru fleiri en eitt er hægt að gefa stig og gera leik úr æfingunni. Síðan er tilvalið að leyfa barninu líka að velja hluti til setja í pokann og fá fullorðna fólkið til að lýsa hlutnum og giska síðan.

Ef þessi æfing er gerð í skólastofu er tilvalið að biðja börnin að nefna þrjú lýsingarorð til að lýsa hlutnum (áður en þau sjá hann).

Önnur útfærsla við þennan leik er að biðja barnið að lýsa hlutnum með eins mörgum setningum/lýsingarorðum og það getur. Það fær barnið til að staldra við og veita hlutnum nána athygli sem styður aukna einbeitingu og það að vera algjörlega til staðar í augnablikinu.

Núnavitundaræfing 2 – Sápukúluöndun

Þessi æfing hjálpar barninu að bera kennsl á eigin hugsanir tilfinningar og skynja þær sem áhorfandi án þess að samsama sig þeim. Æfingin getur því gagnast vel til að vinna með erfiðar tilfinningar.

Hægt er að hlusta á æfinguna í spilaranum hér fyrir neðan en ekki er síðra að foreldri leiði barnið í æfinguna svo hægt sé að gera hana á þeim hraða sem hentar barninu best.

Ein útærsla á æfingunni er að hafa  sápukúluvatn við hendina og leyfa barninu að blása þegar kemur að þeim stað í æfingunni og ímynda sér að sápukúlurnar séu hugsanir/tilfinningar sem það blæs í burt. Þetta hentar yngri börnum sérstaklega vel.

Skriflegar leiðbeiningar fyrir sápukúluöndun

Bjóddu barninu að koma sér þægilega fyrir og loka augunum.

Biddu það að anda djúpt inn og út og segja þér hvar það finnur fyrir hreyfingu í líkamanum.

Biddu það síðan að setja hendur á magann og finna hvernig maginn hreyfist með önduninni.

Endurtakið fimm sinnum, þ.e.a.s. anda 5 sinnum að og 5 sinnum frá.

Eftir það skaltu biðja barnið að taka eftir hugsunum eða tilfinningum sem það finnur fyrir. Ef það vill getur það nefnt þær upphátt.

Bjóddu barninu síðan að sleppa því með því að ímynda sér að hugsanirnar eða tilfinningarnar breytist í sápukúlur sem barnið blæs frá sér við fráöndun.

Að lokum er gott að beina athyglinni aftur að önduninni og anda 5 sinnum að og frá.

Örhugleiðslur viku 1

Örhugleiðslurnar eru til þess gerðar að kynna hugleiðslu fyrir börnunum. Þó að þær séu stuttar er gott að skapa notalegt andrúmsloft og setja sig í smá hugleiðslustellingar. T.d. með því að dimma ljós, sitja í lótusstöðu (með krosslagða fætur), passa að símar valdi ekki truflun o.s.frv. Tilvalið er að leyfa börnunum að hjálpa til við að skapa notalegt andrúmsloft.

Myndavélin

Umræðuefni eftir hugleiðsluna: Hvað var á myndinni þinni? Hvað upplifðirðu fleira í hugleiðslunni?

Verkefni eftir hugleiðsluna:
Biddu barnið að teikna mynd af því sem það tók mynd af í hugleiðslunni.

Eldri börnum mætti bjóða að taka táknrænar myndir á myndavél eða síma og setja þeim fyrir ákveðin verkefni sem fær þau til að skynja umhverfi sitt á nýjan hátt. T.d. að taka mynd sem táknar gleði, kærleik, vináttu, sorg, líf o.s.frv. Mörgum börnum finnst mjög skemmtilegt að fá slík verkefni og geta farið á algjört flug.

Fótboltinn

Umræðuefni eftir hugleiðsluna: Hvernig gekk þér að upplifa að þú værir fótbolti? Gastu ímyndað þér að þú svifir um í loftinu á milli krakkanna? Hvað upplifðirðu fleira í hugleiðslunni?

Verkefni eftir hugleiðsluna:
Biddu barnið að semja síðan eigin örhugleiðslu um eitthvað sem tengist áhugamálum þess. Þegar hugleiðslan er tilbúin er tilvalið að það leiði einhvern annan í hugleiðsluna.

Vika 2

Núnavitundaræfing 3 – Núnavitundarganga

Farið í gönguferð og leikið ykkur að því að taka eftir umhverfinu með öllum skynfærunum. Í þessari æfingu skiptir máli að færa athyglina úr höfðinu (með því að hugsa mikið) yfir í hreina skynjun.

1. Öndun – Byrjið á því að ganga í þögn í stutta stund og reyna að halda athyglinni bara á andardrættinum. Finnið fyrir fersku útiloftinu og hvernig það fyllir lungun og streymir út í allan líkamann.

2. Heyrn – Gangið áfram í þögn og takið eftir öllum hljóðum sem þið heyrið (hversu lágvær sem þau eru). Gott getur verið að staldra við eða setjast á bekk til að heyra enn betur. Nefnið hljóðin upphátt og reynið að heyra eins mörg mismunandi hljóð og þið getið.

3. Lykt – Takið eftir lyktinni og lýsið henni í orðum. Er fleiri en ein lykt?

4. Snerting –  Takið eftir því hvað snertir líkamann, t.d. jörðin undir fótunum, vindurinn eða sólargeisli á kinn o.s.frv.

Eitt tilbrigði af göngunni er að binda fyrir augun á barninu og leiða það áfram. Þannig virkjast hin skynfærin enn betur. Síðan er tilvalið að barnið fái að binda fyrir augun á fullorðna einstaklingnum og leiða gönguna.

Núnavitundaræfing 4 – Hvað er í matinn?

1. Bittu fyrir augun á barninu.
2. Gefðu því síðan lítinn matarbita. Þetta getur t.d. verið rúsína, kexmoli, ávaxtabiti, grænmetisbiti, hneta eða fræ.
3. Biddu barnið að borða matarbitann eins og það væri að smakka þennan mat í fyrsta skipti á ævinni.
4. Barnið á síðan að lýsa matnum, bragði, lykt eða áferð, í þremur setningum og síðan að giska á hvað þetta er.

Tilvalið er að leyfa barninu einnig að velja matarbita, binda fyrir augun á fullorðna einstaklingnum og biðja hann að smakka og geta.

Ef þessi æfing er gerð í skólastofu er tilvalið að biðja börnin að nefna þrjú lýsingarorð til að lýsa matnum.

Örhugleiðslur viku 2

Örhugleiðslurnar eru til þess gerðar að kynna hugleiðslu fyrir börnunum. Þó að þær séu stuttar er gott að skapa notalegt andrúmsloft og setja sig í smá hugleiðslustellingar. T.d. með því að dimma ljós, sitja í lótusstöðu (með krosslagða fætur), passa að símar valdi ekki truflun o.s.frv. Tilvalið er að leyfa börnunum að hjálpa til við að skapa notalegt andrúmsloft.

Skýið

Umræðuefni eftir hugleiðsluna: Ef þú værir ský, hvernig ský værir þú? Stórt eða lítið? Hvernig á litinn? Hvernig í laginu?

Verkefni eftir hugleiðsluna:
Til þess að skilja betur mismunandi tilfinningar má líkja þeim við veður. Bjóddu barninu að tákna mismunandi tilfinningar með því að teikna þær sem veður.

Tilfinningaveður – Smelltu hér fyrir verkefnablað

Innkaupapokinn

Umræðuefni eftir hugleiðsluna: Hvernig leit innkaupapokinn þinn út? Hvað keypti mamman?

Verkefni eftir hugleiðsluna: Biddu barnið að nefna 10-20 atriði sem ekki er hægt að kaupa. Það er t.d. ekki hægt að kaupa vináttu, frið, ást, hugrekki eða hamingju. Það er heldur ekki hægt að kaupa sér fjölskyldu, gott veður, góðan árangur í því sem við tökum okkur fyrir hendur o.s.frv. Ræðið um það hvað er dýrmætast í lífinu. Er hægt að kaupa það? Hér er tilvalið að taka umræðu um að ef við viljum meira af jákvæðum eiginleikum þurfum við að gefa þá. Ef ég t.d. vil kærleik þá þarf ég að sýna öðrum kærleik o.s.frv. Það eru því allt önnur lögmál sem gilda í þessum viðskiptum 😊

Bjóddu barninu síðan að teikna mynd af ímyndaðri verslun sem selur bara það sem ekki er hægt að kaupa undir venjulegum kringumstæðum. Í búðarhillurnar getur barnið sett vörur sem tákna t.d. eitthvað af því sem talið var upp hér að ofan eða annað sem barninu dettur í hug.

Vika 3

Núnavitundaræfing 5 – Límamsskynjun (e. bodyscan)

Þessi hugleiðsla leiðir barnið inn í heildræna skynjun á líkamanum og eigin hugsunum og tilfinningum. Markmiðið er ekki að breyta neinu heldur leyfa öllu að vera eins og það er, jafnvel óþægilegum tilfinningum. Með því getur barnið upplifað innri sátt og slökun. Æfingin getur verið liður í því að takast á við kvíða því fyrsta skrefið í að umbreyta erfiðum tilfinningum er að  taka eftir þeim og viðurkenna þær. Það versta við kvíða er oft ekki kvíðinn sjálfur heldur óttinn við kvíðann. Að óttast ekki eða dæma eigin tilfinningar er því mikilvægt skref til vellíðunar. 

Eftir hugleiðsluna er gott að ræða saman og tilvalið að fullorðni einstaklingurinn deili líka sinni reynslu af því að viðurkenna eigin tilfinningar. Hér eins og alltaf er mikilvægt að vera góð fyrirmynd með því að gangast við eigin tilfinningum.

Ferðalag um líkamann

Núnavitundaræfing 6 – Þú þekkir það af lyktinni!

1. Takið til hluti sem hafa lykt, svo sem kanil, ilmkerti, blóm, ávexti og krydd en gætið þess að sýna ekki barninu.

2. Bittu fyrir augun á barninu.

3. Haltu síðan einum hlutnum fyrir framan nef þess og bjóddu því að draga djúpt að sér andann. Áður en barnið giskar skaltu biðja það að lýsa lyktinni og segja hvort hún minnir það á eitthvað sérstakt (kanill gæti t.d. minnt á jólin o.s.frv.). Síðan má barnið giska á hlutinn.

4. Tilvalið er að barnið fái líka að leggja þessa æfingu fyrir foreldrið. Hægt er að búa til úr þessu skemmtilegan leik og gefa stig fyrir hverja rétta ágiskun.

Örhugleiðslur viku 3

Örhugleiðslurnar eru til þess gerðar að kynna hugleiðslu fyrir börnunum. Þó að þær séu stuttar er gott að skapa notalegt andrúmsloft og setja sig í smá hugleiðslustellingar. T.d. með því að dimma ljós, sitja í lótusstöðu (með krosslagða fætur), passa að símar valdi ekki truflun o.s.frv. Tilvalið er að leyfa börnunum að hjálpa til við að skapa notalegt andrúmsloft.

Ljósaperan

Umræðuefni eftir hugleiðsluna: Hvernig leit skermurinn þinn út? Voru myndir á honum? Þegar við hugsum jákvæðar hugsanir þá geislum við frá okkur góðri orku líkt og ljósaperan í hugleiðslu sem geislaði frá sér jákvæðni og gleði. Ef þú mættir velja þrjár tilfinnningar til að geisla út frá þér, hvaða tilfinningar væru það?

Bangsinn

Umræðuefni eftir hugleiðsluna: Hvernig leit bangsinn út? Hvernig var hann á litinn? Var hann í fötum? Finnst þér gott að knúsa aðra?

Vika 4

Núnavitundaræfing 7 – Ofurhetjustöður

Líkamsstaða okkar hefur mikil áhrif á það hvernig okkur líður og það hvernig annað fólk sér okkur. Með því að æfa líkamsstöður sem ýta undir kjark og styrk getum við framkallað slíka líðan hjá barninu. Þessar æfingar getur verið sérstaklega gott að gera þegar barnið er að undirbúa sig fyrir eitthvað sem veldur því kvíða. Æfið á friðsælum stað þar sem barnið finnur sig öruggt. Gott er að fullorðni einstaklingurinn geri æfinguna líka með barninu.

Súpermann: Standið með fætur í sundur, rétt út fyrir mjaðmirnar. Kreppið hnefa, réttið báða handleggina fram og upp í fullum styrk. Réttið úr líkamanum þannig að hann sé ekki hokinn og standið í fullum styrk. Segið setningar sem styðja við upplifunina, s.s. ég er sterk/ur, ég er hugrakkur/hugrökk, ég get allt sem ég vil. Biðjið barnið að nefna fleiri setningar sem hjálpar því að upplifa sjálfstraust og hugrekki.

Ofurkonan: Standið með líkamann beinan, fótleggi í sundur út fyrir mjaðmir og hendur á mjöðmum. Endurtakið sömu setningar og í æfingunni hér fyrir ofan.

Æfingarnar hafa í raun ekkert með kyn að gera og er tilvalið að bæði strákar og stelpur iðki báðar æfingarnar.

Núnavitundaræfing 8 – Ævintýraganga

Farið í gönguferð og ákveðið fyrirfram að veita einhverju ákveðnu fyrirbæri athygli og telja. Undanfarið hafa mörg börn prófað að telja bangsa í gluggum en þið getið t.d. ákveðið að telja skordýr, fugla, bíla í ákveðnum lit, börn o.s.frv. Tilvalið er að leyfa barninu að velja hvað er talið.

Þessi leikur styður barnið við að vera með glaðvakandi athygli og veita umhverfinu gaum á nýjan hátt.

Núnavitundaræfing 9 – Skýjaöndun

Þessi æfing er annað afbrigði af sápukúluönduninni frá viku 1 á maí (hér ofar á síðunni).

1. Bjóddu barninu að koma sér þægilega fyrir og loka augunum.

2. Biddu það að anda djúpt inn og út og segja þér hvar það finnur fyrir hreyfingu í líkamanum.

3. Biddu það að setja hendur á magann og finna hvernig maginn hreyfist með önduninni.

4. Endurtakið fimm sinnum, þ.e.a.s. anda 5 sinnum að og 5 sinnum frá.

5. Eftir það skaltu biðja barnið að taka eftir hugsunum eða tilfinningum sem það finnur fyrir. Ef það vil getur það nefnt þær upphátt.

6. Biddu nú barnið að ímynda sér að við innöndun breytist hugsunin/tilfinningin í lítið ský rétt fyrir ofan höfuð þess. Við fráöndun svífur skýið í burtu.

7. Að lokum er gott að beina athyglinni aftur að önduninni og anda 5 sinnum að og frá.

Örhugleiðslur viku 4

Örhugleiðslurnar eru til þess gerðar að kynna hugleiðslu fyrir börnunum. Þó að þær séu stuttar er gott að skapa notalegt andrúmsloft og setja sig í smá hugleiðslustellingar. T.d. með því að dimma ljós, sitja í lótusstöðu (með krosslagða fætur), passa að símar valdi ekki truflun o.s.frv. Tilvalið er að leyfa börnunum að hjálpa til við að skapa notalegt andrúmsloft.

Köngulóin

Umræðuefni eftir hugleiðsluna: Ert þú hrædd/ur við köngulær? Vissir þú að flestar köngulær eru með átta augu?

Verkefni: Bjóddu barninu að teikna mynd af ímynduðu uppáhalds dýri. Barnið getur ráðið hvernig dýrið lítur út, hvað því finnst best að borða, hvað það hefur mörg augu, fætur o.s.frv. Þegar myndin er tilbúin er tilvalið að bjóða barninu að semja örhugleiðslu um dýrið sitt og leiða síðan einhvern í hugleiðsluna.

Kertið

Umræðuefni eftir hugleiðsluna: Hvernig leit kertið út? Var það hátt eða lágt? Mjótt eða breitt? Var mynd framan á því? Hvað finnst þér skapa notalega stemningu?

Verkefni: Bjóðið barninu að skapa sem allra notalegasta stemningu, einhvers konar rými sem gott er að hugleiða í. Það getur t.d. tínt til teppi og púða, kveikt á kertum, notað ilmolíu til að skapa góða lykt o.s.frv. Bjóddu barninu síðan að velja eina Heillastjörnu hugleiðslu og þið njótið þess að hugleiða saman í notalega rýminu EÐA þú getur boðið barninu að leiða þig í hugleiðslu. Mörg börn njóta þess virkilega að fá að leiða hugleiðsluna sjálf.