Núnavitundarleikir

Áhrif hugleiðsluiðkunar einskorðast ekki við stundina sem hugleitt er heldur getur hugleiðslan haft víðtæk, jákvæð áhrif á daglegt líf. Markmið iðkunarinnar er m.a. að hjálpa þeim sem iðka að auka innra jafnvægi, sátt og gleði í daglegum athöfnum.

Hér á eftir fara ýmsir núvitundarleikir sem eru til þess fallnir að brúa bilið á milli hugleiðsluiðkunar og daglegs lífs.

Góða skemmtun!

Ævintýraganga

Farið í gönguferð og ákveðið fyrirfram að veita einhverju ákveðnu fyrirbæri athygli og telja. Mörg börn hafa prófað að telja bangsa í gluggum en þið getið t.d. ákveðið að telja skordýr, fugla, bíla í ákveðnum lit, börn o.s.frv. Tilvalið er að leyfa barninu að velja hvað er talið.

Þessi leikur styður barnið við að vera með glaðvakandi athygli og veita umhverfinu gaum á nýjan hátt.

Ofurhetjustöður

Líkamsstaða okkar hefur mikil áhrif á það hvernig okkur líður og það hvernig annað fólk sér okkur. Með því að æfa líkamsstöður sem ýta undir kjark og styrk getum við framkallað slíka líðan hjá barninu. Þessar æfingar getur verið sérstaklega gott að gera þegar barnið er að undirbúa sig fyrir eitthvað sem veldur því kvíða. Æfið á friðsælum stað þar sem barnið finnur sig öruggt. Gott er að fullorðni einstaklingurinn geri æfinguna líka með barninu.

Súpermann: Standið með fætur í sundur, rétt út fyrir mjaðmirnar. Kreppið hnefa, réttið báða handleggina fram og upp í fullum styrk. Réttið úr líkamanum þannig að hann sé ekki hokinn og standið í fullum styrk. Segið setningar sem styðja við upplifunina, s.s. ég er sterk/ur, ég er hugrakkur/hugrökk, ég get allt sem ég vil. Biðjið barnið að nefna fleiri setningar sem hjálpar því að upplifa sjálfstraust og hugrekki.

Ofurkonan: Standið með líkamann beinan, fótleggi í sundur út fyrir mjaðmir og hendur á mjöðmum. Endurtakið sömu setningar og í æfingunni hér fyrir ofan.

Æfingarnar hafa í raun ekkert með kyn að gera og er tilvalið að bæði strákar og stelpur iðki báðar æfingarnar.

Þú þekkir það af lyktinni!

1. Takið til hluti sem hafa lykt, svo sem kanil, ilmkerti, blóm, ávexti og krydd en gætið þess að sýna ekki barninu.

2. Bittu fyrir augun á barninu.

3. Haltu síðan einum hlutnum fyrir framan nef þess og bjóddu því að draga djúpt að sér andann. Áður en barnið giskar skaltu biðja það að lýsa lyktinni og segja hvort hún minnir það á eitthvað sérstakt (kanill gæti t.d. minnt á jólin o.s.frv.). Síðan má barnið giska á hlutinn.

4. Tilvalið er að barnið fái líka að leggja þessa æfingu fyrir foreldrið. Hægt er að búa til úr þessu skemmtilegan leik og gefa stig fyrir hverja rétta ágiskun.

Hvað er í matinn?

1. Bittu fyrir augun á barninu.
2. Gefðu því síðan lítinn matarbita. Þetta getur t.d. verið rúsína, kexmoli, ávaxtabiti, grænmetisbiti, hneta eða fræ.
3. Biddu barnið að borða matarbitann eins og það væri að smakka þennan mat í fyrsta skipti á ævinni.
4. Barnið á síðan að lýsa matnum, bragði, lykt eða áferð, í þremur setningum og síðan að giska á hvað þetta er.

Tilvalið er að leyfa barninu einnig að velja matarbita, binda fyrir augun á fullorðna einstaklingnum og biðja hann að smakka og geta.

Ef þessi æfing er gerð í skólastofu er tilvalið að biðja börnin að nefna þrjú lýsingarorð til að lýsa matnum.

Núnavitundarganga

Farið í gönguferð og leikið ykkur að því að taka eftir umhverfinu með öllum skynfærunum. Í þessari æfingu skiptir máli að færa athyglina úr höfðinu (með því að hugsa mikið) yfir í hreina skynjun.

1. Öndun – Byrjið á því að ganga í þögn í stutta stund og reyna að halda athyglinni bara á andardrættinum. Finnið fyrir fersku útiloftinu og hvernig það fyllir lungun og streymir út í allan líkamann.

2. Heyrn – Gangið áfram í þögn og takið eftir öllum hljóðum sem þið heyrið (hversu lágvær sem þau eru). Gott getur verið að staldra við eða setjast á bekk til að heyra enn betur. Nefnið hljóðin upphátt og reynið að heyra eins mörg mismunandi hljóð og þið getið.

3. Lykt – Takið eftir lyktinni og lýsið henni í orðum. Er fleiri en ein lykt?

4. Snerting –  Takið eftir því hvað snertir líkamann, t.d. jörðin undir fótunum, vindurinn eða sólargeisli á kinn o.s.frv.

Eitt tilbrigði af göngunni er að binda fyrir augun á barninu og leiða það áfram. Þannig virkjast hin skynfærin enn betur. Síðan er tilvalið að barnið fái að binda fyrir augun á fullorðna einstaklingnum og leiða gönguna.

Að standa á einum fæti (einbeitingaræfing)

 1. Horfðu niður og veldu þér einhvern einn punkt til að beina athyglinni að.

 2. Stattu nú á einum fæti og haltu einbeitingunni á punktinum sem þú valdir þér.

 3. Reyndu að standa eins lengi og þú getur.

 4. Prófaðu síðan að standa á hinum fætinum.

Það er hægt að leika sér á ýmsan hátt með þessa æfingu. T.d. biðja barnið að loka augunum til að gera æfinguna erfiðari eða biðja það að syngja lag eða tala við það á meðan það reynir að halda einbeitingunni. Einnig er hægt að láta tvö börn gera æfinguna saman þar sem þau skiptast á að standa á einum fæti og annað reynir að trufla það sem stendur án þess að snerta það eða gefa frá sér hljóð.

Að þekkja sína krónu (einbeitingaræfing)

Þessi æfing þjálfar vakandi athygli og er hægt að gera hana í hópi barna eða með einu barni en þá þarf að bæta við nokkrum krónum á diskinn svo barnið hafi eitthvað til að velja úr.

 1. Allir fá einn krónupening og fá eina mínútu til að skoða hann gaumgæfilega.

 2. Síðan er krónunum sfnað saman á disk.

 3. Hver og einn á síðan að finna aftur sína krónu.

 4. Síðan er sest í hring og hver og einn útskýrir hvernig hann/hún þekkti sína krónu.

Mandölugerð

Margir kannast við mandölulitabækurnar sem geta gagnast fullorðnum jafnt sem börnum við að kyrra hugann. Orðið mandala þýðir einfaldlega hringur (komið úr sanskrít) og getur hjálpað okkur að upplifa innri kyrrð og aukna einbeitingu. Tilvalið er að leyfa börnum að skapa sína eigin mandölu úr smáhlutum. Um að gera að leyfa sér að vera nógu skapandi og ekki verra að spila rólega tónlist á meðan mandölugerðin stendur yfir til að skapa friðsælt andrúmsloft.

 1. Safnið saman smáhlutum sem hægt er að nýta í mandölugerðina. Þetta geta t.d. verið steinar, fjaðrir, haustlauf, ávextir, tölur, lyklar, kubbar eða aðrir smáhlutir sem henta til verksins.

 2. Leyfið barninu að velja einhvern hlut sem táknar kyrrð og stöðugleika (t.d. kerti) til að setja í miðjuna.

 3. Síðan er raðað í kringum miðjuna hringjum sem mynda falleg mynstur. Ein útfærsla af hugmyndinni er að biðja barnið að búa til mandölu sem táknar einhvern ákveðinn eiginleika, t.d. frið eða kærleika.

 4. Eftir að mandalan er tilbúin er hægt að setjast í kringum hana og eiga smá kyrrðarstund saman (ef athygli og einbeiting leyfa), hlusta á eina Heillastjörnu hugleiðslu og njóta stundarinnar saman. Ef barnið hefur búið til mandölu sem táknaði eiginleika er hægt að hlusta á hugleiðsluna sem tengist þeim eiginleika (í flokknum Jákvæð gildi).

Hvað skynjarðu?

Heilbrigð og virk skynjun á umheiminum getur aukið jarðtengingu barnsins. Í þessari æfingu eru skynfærin virkjuð og barnið lærir að veita umhverfinu athygli á meðvitaðan hátt.

Biddu barnið að nefna eða skrifa niður (út frá skynjun þess á þessu augnabliki):

5 hluti sem það sér
4 hljóð sem það heyrir
3 hluti sem það getur snert
2 lyktir sem það finnur
1 bragð sem það finnur

Ef tími og aðstæður leyfa er tilvalið að leyfa barninu að útfæra þetta á myndrænan hátt og teikna það sem það skynjar.

Önnur útfærsla á æfingunni (fyrir yngri börn ef hin reynist of erfið):

Biddu barnið að nefna (út frá skynjun þess á þessu augnabliki):

5 liti sem það sér
4 form sem það sér
3 mjúka hluti sem það sér
2 manneskjur sem það sér
1 bók sem það sér

Hlutir í poka

Markmiðið með þessum leik er í raun ekki það að barnið geti giskað rétt á hlutinn í pokanum heldur að fá það til að staldra við, beita skynfærum sínum á nýjan hátt og vera til staðar í augnablikinu.

Settu marga litla hluti sem eru áhugaverðir í laginu í poka. Bjóddu barninu að setja hendina ofan í pokann og þreifa á hlutnum án þess að sjá hann. Barnið á síðan að lýsa hlutnum (lögun og áferð) í a.m.k. 3-4 setningum án þess að giska á hvaða hlutur þetta er. Að lokum giskar barnið á hlutinn. Ef börnin eru fleiri en eitt er hægt að gefa stig og gera leik úr æfingunni. Síðan er tilvalið að leyfa barninu líka að velja hluti til setja í pokann og fá fullorðna fólkið til að lýsa hlutnum og giska síðan.

Ef þessi æfing er gerð í skólastofu er tilvalið að biðja börnin að nefna þrjú lýsingarorð til að lýsa hlutnum (áður en þau sjá hann).

Önnur útfærsla við þennan leik er að biðja barnið að lýsa hlutnum með eins mörgum setningum/lýsingarorðum og það getur. Það fær barnið til að staldra við og veita hlutnum nána athygli sem styður aukna einbeitingu og það að vera algjörlega til staðar í augnablikinu.