Núnavitundariðkun með börnum
Af hverju núvitund?
Í samfélagi þar sem áreitið er gífurlega mikið getur það reynst börnum jafnt sem fullorðnum erfitt að halda huganum uppteknum við eitthvað eitt í einu. Hugurinn verður auðveldlega tættur og eirðarlaus og þetta innra rótleysi getur skapað kvíða og spennu innra með barninu. Það nær kannski sjaldan eða aldrei að slaka alveg á og tengja við sjálft sig.
Í slíku eirðarleysi yfirtekur hugurinn gjarnan skynjunina og þar með heilbrigð tengsl við umhverfið. Við könnumst líklega mörg við það að finna fyrir innri spennu og kvíðatengdum hugsunum og hvað það eitt að fara í gönguferð í náttúrunni, teiga að sér hreina loftið og njóta ferskleika náttúrunnar getur gjörbreytt líðaninni á skömmum tíma. Á slíkum stundum hljóðnar hugurinn og skynjun á eigin sjálfi og náttúrunni tekur yfir. Í stað þess að festast í okkar eigin litla hugarheimi upplifum við víðsýni og innra frelsi. Oft er það einmitt þá sem við fáum síðan bestu hugmyndirnar eða svör við spurningum sem höfðu herjað á okkur.
Börn í nútímasamfélagi alast upp við allt aðrar aðstæður en tíðkuðust fyrir 30-40 árum síðan. Þau byrja oft frá unga aldri að verja miklum tíma í tölvum og snjalltækjum þar sem áreitið á hugann er mikið og þau venjast hraða og stöðugri svörun. Þegar tengsl við eigið sjálf og umhverfið minnka geta kvíði og innri spenna auðveldlega gert vart við sig, jafnvel án þess að nokkur önnur ástæða sé sýnileg.
Núnavitundaræfingar hjálpa barninu að tengjast sjálfu sér og umhverfinu á heilbrigðan hátt og þjálfa það í að hafa meiri stjórn á eigin hug og tilfinningum.
Hvað er núvitund?
Í einföldu máli má segja að núvitund feli það í sér að stíga til baka, horfa á eigin hugsanir og tilfinningar og skynja umhverfið eins og áhorfandi, án þess að dæma en með slökum hug og fullkomlega til staðar í augnablikinu.
Vísindarannsóknir hafa sýnt að núvitundariðkun getur hjálpað til við að sporna gegn streitu, kvíða, þunglyndi, veikindum og sársauka. Núnavitundariðkun getur einnig haft mjög jákvæð áhrif á einstaklinga með ADHD eða einhverfu, bætt námsárangur og samskiptahæfni. Iðkunin hjálpar einstaklingunum að fá heilbrigða fjarlægð á eigin hugsanir og tilfinningar.
Núnavitund er börnum eðlislæg og er þeim einstaklega lagið að vera fullkomlega til staðar í því sem þau taka sér fyrir hendur. Eftir því sem þau eldast og áreiti og hraði lífsins eykst færast þau yfirleitt fjær þessu vitundarástandi og geta farið að finna fyrir aukinni streitu og kvíða. Með því að iðka núvitund með börnum styðjum við þau í þeirri upplifun að vera til staðar og finna friðinn sem býr aðeins í augnablikinu.
Núnavitundaræfingar fyrir börn virka best ef þær eru hafðar stuttar til að viðhalda áhuga þeirra og athygli. Betra er að æfa oftar og stutt í einu.
Leiðbeiningar fyrir núvitundariðkun með börnum
1. Mikilvægt er að velja tíma þar sem barnið eru móttækilegt fyrir því að prófa. Iðkið á jákvæðum stundum og forðastu að grípa til iðkunarinnar þegar barnið er illa fyrirkallað. Barnið ætti alls ekki að upplifa núvitundar- eða hugleiðsluiðkun sem agastjórnun af hálfu foreldra heldur sem skemmtilegan leik.
2. Takt þú sem fullorðin manneskja líka þátt í iðkuninni af heilum hug. Það skiptir miklu máli að vera fyrirmynd og að við birtum sjálf í verki það sem við kennum börnunum okkar.
3. Núnavitundaræfingar fyrir börn virka best ef þær eru hafðar stuttar til að viðhalda áhuga þeirra og athygli. Betra er að æfa oftar og stutt í einu.
4. Segðu barninu að það sé í góðu lagi að athyglin fari stundum annað, það gerist hjá öllum en æfingin skapar meistarann.
5. Endaðu á því að gera eitthvað með barninu sem því finnst skemmtilegt til að vera viss um að heildarupplifunin af stundinni sé góð. Með því móti er líklegra að barnið verði móttækilegt fyrir áframhaldandi iðkun síðar.
6. Skapaðu daglegar núvitundarvenjur í samráði við barnið og leyfðu barninu að taka þátt í ákvarðanatöku varðandi iðkunina.
7. Hvettu barnið til að deila upplifunum sínum við lok iðkunar.