Jarðtenging og innra öryggi

Innra öryggi – stöðugleiki – traust

Fyrstu hugleiðslurnar í sjálfstyrkingarflokknum hafa það að markmiði að skapa öryggi og stöðugleika innra með barninu. Slíkt getur unnið á móti streitu og kvíða og aukið innri ró, einbeitingu og traust.

Hvað er átt við með jarðtengingu?

Með jarðtengingu er m.a. átt við heilbrigða og trausta tengingu okkar við okkar eigið sjálf, líkamann, annað fólk og náttúruna.

Undirstaða þess að börn (og fullorðnir) upplifi vellíðan og geti þroskast á hinum ýmsu sviðum tilverunnar er góð jarðtenging sem skapar innra öryggi og jafnvægi. Líkt og gróður sem dafnar best í góðum og nærandi jarðvegi þarf manneskjan líka góða innri undirstöðu til að vaxa og dafna. Þegar ræturnar ná ekki nógu djúpt mun allt tréð líða fyrir það og eins er það með okkur mannfólkið. Þegar við gefum okkur ekki tíma til að tengja inn á við er hætt við að við verðum tætt og upplifum streitu og ójafnvægi.

Mörg börn eiga erfitt með að hugleiða í fyrstu vegna þess að jarðtengingin er lítil og þau óróleg og ör. Þetta hefur einnig áhrif á tilfinningarnar og getur valdið skapsveiflum, óöryggi og kvíða. Ef barnið á erfitt með að einbeita sér að hugleiðslunni í fyrstu skiptir máli að við fullorðna fólkið gefumst ekki upp heldur höldum áfram að gera tilraunir með barninu.

Þegar börnin komast upp á bragðið með hugleiðsluna munu þau njóta hennar og ein stutt hugleiðsla á dag getur haft gífurlega jákvæð áhrif á innra öryggi og jafnvægi barnsins. Það mun síðan hjálpa því að standa betur af sér storma lífsins og upplifa sterk tengsl við sjálft sig þegar á móti blæs.

Í jógafræðunum er talað um rauðan lit sem lit jarðtengingar og innra öryggis. Rauðir litir  sem og jarðarlitir skapa tilfinningu fyrir tengingu við jörðina sem aftur skapar innra jafnvægi og stöðugleika.

Merki þess að jarðtengingu sé ábótavant:

Barnið…

  • upplifir óöryggi og kvíða

  • á erfitt með  treysta

  • er áhrifagjarnt og á erfitt með að vera það sjálft

  • á erfitt með að tengjast öðrum og náttúrunni

  • græðgi í hluti og mat

  • upplifir að því sé ógnað á einhvern hátt

Merki um góða jarðtengingu:

Barnið…

  • upplifir innri stöðugleika og ró

  • verður ekki auðveldlega fyrir áhrifum frá öðrum og á auðvelt með að vera það sjálft

  • treystir sjálfu sér, öðru fólki og lífinu

  • á í heilbrigðu sambandi við mat og hluti