Íþróttahugleiðslur

Við viljum flest vera í góðu líkamlegu formi en hugarþjálfunin skiptir ekki síður máli þegar kemur að íþróttaiðkun.
Hér á eftir fara nokkrar hugleiðslur sem henta vel fyrir og eftir íþróttaæfingar/keppnir.

Njótið vel!

Íþróttir og hugleiðsluiðkun

Þegar kemur að íþróttaiðkun er mikilvægt að æfa fjölbreyttar hliðar íþróttarinnar. Það er t.d. ekki nóg að æfa bara styrk en ekki úthald, eða æfa styrk og úthald en sleppa því að gera teygjur. Eitt af því sem mörgum þeim sem æfa íþróttir yfirsést er mikilvægi þess að þjálfa hugarró og einbeitingu í gegnum hugleiðsluæfingar.

Margt afreksfólk í íþróttum hefur sagt frá því hvernig hugleiðsluiðkun hefur hjálpað því að halda góðu andlegu jafnvægi og einbeitingu og ná þannig enn betri árangri. Hér eru dæmi:

Tennisstjarnan Bianca Addreascu þakkar velgengni sína að hluta til hugleiðslu og segist byrja hvern morgun á því að hugleiða. Hún hefur sagt í fjölmiðlum að hugleiðslan hjálpi henni að byrja daginn vel og byrjar yfirleitt á hugleiðslu áður en hún kíkir á símann sinn á morgnana. Hún hugleiðir í 15 mínútur í senn og stillir sig inn á daginn sem er framundan og sér fyrir sér að hann verði góður. Hún notar líka hugleiðslu áður en hún fer inn í tennisleiki og sér fyrir sér að þeir muni ganga vel.

Körfuboltagoðsagnirnar Michael Jordan og Kobe Bryant voru með hugleiðslukennara sem hjálpaði þeim og körfuboltaliðinu þeirra að þjálfa hugann. Þetta átti sinn þátt í að liðin unnu stóra sigra í MBA deildinni.

Af hverju ættum við að æfa hugleiðslu í tengslum við íþróttaæfingar?

Eitt af markmiðum hugleiðslu er að hjálpa okkur að halda huganum skýrum og frjálsum frá neikvæðum hugsunum, t.d. hugsunum sem tengjast vanmáttarkennd, efasemdum um eigin getu, áhyggjum eða reiði. Ef neikvæðni yfirtekur hugann er hætt við að við náum ekki að nýta styrkleika okkar til fulls og það getur verið hamlandi og valdið okkur vonbrigðum. Ef við virkjum hugann aftur á móti á jákvæðan hátt er líklegra að okkar eigin hugsanir séu ekki að þvælast fyrir okkur heldur mun jákvætt hugarfarið þvert á móti styðja okkur við að ná markmiðum okkar.

Þegar líkaminn er undir miklu álagi framleiðir hann meira af streituhormóninu kortisól. Þetta getur gerst ef við erum stressuð en líka við íþróttaiðkun þrátt fyrir að iðkunin sé að jákvæðum toga, álagið á hug og líkama er einfaldlega það mikið. Þess vegna getur verið afar gagnlegt að iðka hugleiðslu eftir íþróttaiðkun þar sem rannsóknir hafa sýnt að iðkun hugleiðslu getur minnkað magn kortisól í líkamanum. Með hugleiðsluiðkuninni kemst því aftur á jafnvægi í hug og líkama.

Einnig getur verið afar gott að hugleiða fyrir íþróttaiðkun og stilla hugann inn á jákvæðni og einbeitingu. Þegar hugarfarið er heilbrigt og öflugt getur það haft mikil og góð áhrif á árangurinn en ekki síður á andlega líðan þeirra sem iðka. Slík innstilling getur t.d. stuðlað að því að við missum ekki stjórn á skapi okkar eða tökum það inn á okkur ef við töpum heldur leggjum áherslu á leikgleði og jákvæðni.

Hér á eftir fara hugleiðsluæfingar sem gott er að iðka í tengslum við hvers konar íþróttaiðkun.

Fyrir íþróttaiðkun

Innstilling fyrir íþróttaiðkun – með tónlist

Innstilling fyrir íþróttaiðkun – án tónlistar

Út með stress, inn með frið – með tónlist

Út með stress, inn með frið – án tónlistar

Eftir íþróttaiðkun

Slökun eftir íþróttaiðkun – með tónlist

Slökun eftir íþróttaiðkun – án tónlistar

Einföld öndunaræfing fyrir eða eftir íþróttaiðkun

1. Stilltu klukku á 5 mínútur.

2. Bjóddu börnunum að sitja upprétt í þægilegri stellingu. Ef þau sitja á gólfinu geta þau haft fætur krosslagða. Einnig er hægt að iðka þessa æfingu liggjandi á bakinu.

3. Bjóddu börnunum að loka augunum.

4. Biddu börnin að anda inn og telja upp á tveimur í huganum, halda síðan niðrí sér andanum á meðan þau telja upp á tveimur og anda að lokum rólega frá sér á meðan þau telja upp að fjórum í huganum. (Talningin er þá 2-2-4).

Hver og einn gerir þetta á sínum hraða og þess vegna er ekki hljóðupptaka með þessari æfingu en það gæti verið styðjandi að spila rólega tónlist á meðan æfingin stendur yfir. Þátttakendur halda athyglinni á öndunni og endurtaka æfinguna á meðan 5 mínúturnar standa yfir. Það er sjálfsögðu hægt sð stytta eða lengja tímann eftir hentisemi.

Einnig má leika sér með að lengja andardráttinn en gott er að hafa fráöndunina helmingi lengri en innöndun. T.d. telja upp að þremur við innöndun, halda niðri sér andanum á þremur og anda frá sér og telja upp á sex í huganum. (Talningin er þá 3-3-6, einnig mætti prófa 4-4-8).