Áskoranir lífsins

Það er víst óhjákvæmilegt að lífið færi okkur áskoranir í ýmsum myndum. Á krefjandi stundum getur hugleiðslan verið líkt og ljós í tilverunni, auðveldað okkur að takast á við aðstæðurnar og leitt okkur inn í betri líðan. Í þessum flokki er sem stendur aðeins ein hugleiðsla en þær munu verða fleiri. Ef þú hefur ósk um að eitthvað tiltekið viðfangsefni verði tekið fyrir hér máttu gjarnan senda okkur línu á heillastjarna@heillastjarna.is

Njótið vel!

Frelsi frá einmanaleika

Frelsi frá einmanaleika með tónlist

Frelsi frá einmanaleika án tónlistar

Flest börn ganga einhvern tímann í gegnum tímabil þar sem þau upplifa einmanaleika. Á slíkum stundum er fátt mikilvægara en að hlúa vel að eigin sjálfi og verða sinn eigin besti vinur. Þessi hugleiðsla hjálpar barninu að finna jafnvægi, huggun og  hugarró en hvetur það einnig til að byggja sig upp í gegnum jákvæðar hugsanir sem stuðla að sjálfskærleik og sjálfsvirðingu.

Úr reiði í ró

Úr reiði í ró með tónlist

Úr reiði í ró án tónlistar

Þessi hugleiðsla hjálpar barninu að róa sig niður eftir að hafa upplifað reiði. Hugleiðslan leiðir barnið inn í núvitund þar sem það tekur eftir eigin tilfinningum og hugsunum án þess að samsama sig þeim. Eftir hugleiðsluna ætti barnið að finna fyrir auknu innra jafnvægi, slökun og hugarró.

Kærleikshugleiðsla

Kærleikshugleiðsla með tónlist

Kærleikshugleiðsla án tónlistar

Þessi hugleiðsla er ætluð börnum sem upplifa sorg eða söknuð vegna ástvina- eða gæludýramissis. Hugleiðslan leiðir börnin inn í kærleiksríkar tilfinningar sem þau síðan umvefja hinn látna með og upplifa þannig heilandi mátt kærleiksríkra tilfinninga.

Þegar hlustað er á hugleiðsluna er sérlega mikilvægt að skapa hlýlegt andrúmsloft og takmarka allt ytra áreiti þar sem hugleiðslan getur kallað fram krefjandi tilfinningar. Einnig er mikilvægt að fullorðinn einstaklingur sem barnið treystir sé til staðar og geti rætt við barnið um upplifunina eftir hugleiðsluna.