Blámi og Ljósbrá á hugarflugi – hugleiðsluævintýri

Ævintýrið segir frá Bláma englastrák og stelpunni Ljósbrá sem njóta þess að ferðast um heiminn á hugarflugi og láta gott af sér leiða í leiðinni. Sagan er til þess fallin að skapa innra öryggi og von og getur hentað börnum sem glíma við kvíða eða einmanaleika sérlega vel.

Þrátt fyrir að englar komi við sögu er ævintýrið í sjálfu sér ekki trúarlegs eðlis heldur birtast englarnir sem táknmynd góðra afla, enda má segja að við mannfólkið séum öll fær um að vera englar í eigin lífi og annarra ef við lærum að lifa í vitundinni um innra ljósið okkar.

Sagan er í 7 köflum sem munu birtast hér á komandi vikum og í lokin verður sagan einnig birt sem ein heild og verður þá tilvalin til að leiða börnin inn í draumalandið á kvöldin.

Njótið vel!

Blámi og Ljósbrá á hugarflugi – sagan í heild sinni

Hér má hlusta á söguna í fullri lengd og er hún tilvalin til að leiða börnin inn í svefninn en hún er rúmar 52 mínútur að lengd.

1. kafli – Flugþjálfun Bláma

Í kaflanum kynnumst við Bláma englastrák og hinum englunum á Ljósatindi og kynnumst því hvernig englar geta flogið. Kaflinn endar á slakandi hugleiðslutónlist og er því tilvalinn til að leiða börnin inn í draumalandið.

Hefur þú einhvern tímann hugsað um að þig myndi langa til að geta flogið?

Ef þú gætir flogið hvert sem er, hvert myndurðu fara og hvað myndirðu gera þar?

Gastu séð englana fyrir þér og fötin þeirra úr ljósi? Kannski viltu prófa að teikna mynd af englaþorpinu á Ljósatindi…

2. kafli – Ljósbrá

Í kaflanum kynnumst við Ljósbrá, einmana stelpu sem þráir ekkert heitar en að eignast góðan vin.

Upplifir þú stundum einmanaleika?

Hvað finnst þér gott að gera eða hugsa ef þú finnur fyrir einmanaleika eða upplifir að einhver skilji þig eftir útundan?

Hefur þú einhvern hjálpað öðru barni sem upplifir einmanaleika? Hvernig gætirðu gert það?

3. kafli – Skólalóðin

Í kaflanum ferðast Ljósbrá og Blámi með hugarflugi á skólalóð og hjálpa einmana strák að finna hugrekki og styrk innra með sér.

Finnst þér stundum erfitt að vera í samskiptum við aðra krakka? Af hverju?

Ef þú mættir velja þér demant til að minna þig á að styrkinn sem þú hefur innan í þér, hvernig liti hann út og hvernig væri hann á litinn?

4. kafli – Fegursta stjarnan

Í kaflanum fljúga Ljósbrá og Blámi inn í annan heim og kynnast björtustu stjörnunni í öllum heiminum.

Gastu ímyndað þér að þú flygir inní birtuheiminn? Hvernig var þessi heimur og hvernig fannst þér að vera þar?

Gastu séð fyrir þér björtustu stjörnuna og ímyndað þér að hún væri að fylla þig af ljósi?

5. kafli – Englafundurinn og
6. kafli – Lífsins tré

Í köflum 5 og 6 hittast englarnir á Ljósatindi til að ráða ráðum sínum vegna hættulegs myrkurs sem herjar á heiminn. Ljósbrá og Blámi ganga til liðs við englana og einsetja sér að finna leið til að bægja myrkrinu burt. Börnin tvö fljúga af stað til að spyrja björtustu stjörnuna ráða en ferðin tekur óvænta stefnu og leiðir þau að lífsins tré.

Hefur þú stundum áhyggjur? Hvað veldur þér mestum áhyggjum? (Það geta verið áhyggjur sem tengjast þínu eigin lífi eða áhyggjur sem tengjast heiminum). Hvað geturðu gert til að finna aftur frið innra með þér?

Gastu séð lífsins tré fyrir þér? Hvernig leit það út? Hvernig leit gimsteinninn þinn út?

Hvers óskaðir þú þér í lokin á hugleiðslunni?

7. kafli – Ljós í heimi

Í 7. kafla dreifa Ljósbrá, Blámi og alli englarnir gimsteinum til allra jarðarbúa svo þeir geti aftur munað eftir innra ljósinu sínu.

Hvernig væri heimurinn öðruvísi ef öllum liði vel? Hvað myndi þurfa að breytast í skólanum þínum, fölskyldunni þinni eða vinahópnum til að öllum gæti liðið vel? Hvað er það helst sem lætur fólki eða börnum líða illa?

Prófaðu að teikna mynd, skrifa sögu eða búa til hugleiðslu um heim þar sem öllum líður vel. Ef þú skrifar sögu eða býrð til hugleiðslu er tilvalið að lesa það síðan upphátt fyrir einhvern.