Skilaboðahjólið

Snúðu hjólinu og lestu skilaboðin sem koma upp. Þau lýsa einhverjum eiginleika sem þú hefur! Ef þú vilt geturðu hlustað á hugleiðsluna sem passar við eiginleikann (þú finnur hana hér neðar á síðunni) því hún hjálpar þér að upplifa eiginleikann. Eftir hugleiðsluna er síðan tilvalið að spjalla saman um umræðuefnin.

Góða skemmtun!

Auðmýkt
Einfaldleiki
Eldmóður
Fegurð
Frelsi
Friður
Gleði
Heiðarleiki
Hugrekki
Kærleikur
Léttleiki
Sátt
Sjálfsvirðing
Staðfesta
Styrkur
Sveigjanleiki
Traust
Umhyggjusemi
Velvilji
Virðing
Þakklæti
Þolinmæði
Örlæti
Öryggi
Viltu persónuleg skilaboð?

  

Auðmýkt

Þú lítur á alla sem jafngóða og finnst þú hvorki vera betri né verri en aðrir. Þú upplifir sjaldan öfund því að þér finnst gott að vera þú.

Hvað er auðmýkt? Er hægt að vera ánægður með sjálfan sig án þess að vera montinn?

Einfaldleiki

Þú finnur yfirleitt fljótt lausn
á vandamálum og
flækir hlutina ekki að óþörfu.
Þess vegna geturðu
leyst erfið verkefni.

Hvað er einfaldleiki? Rifjaðu upp atvik þar sem upp kom vandamál en þér, eða öðrum, tókst að finna einfalda og góða lausn.

Eldmóður

Þú hefur mikinn sköpunarkraft
og færð oft góðar hugmyndir.
Þegar þú hefur mikinn áhuga
á einhverju gerirðu það af
fullum krafti og
þér gengur vel.

Hvað er eldmóður? Hvað fyllir þig eldmóði? Á hverju hefurðu mestan áhuga?

Fegurð

Líkt og skínandi stjarna
geislar þú af innri fegurð
sem kemur út frá fallegum og
jákvæðum hugsunum.

Hvað er innri fegurð? Hverjar eru fallegustu hugsanirnar sem þú getur hugsað?

Frelsi

Þú ert frjáls eins og
fuglinn fljúgandi.
Neikvæðar hugsanir
ná ekki að fanga þig og
hugurinn þinn er
fylltur gleði og léttleika.

Hvað er frelsi? Hvað er það sem minnir þig á frelsi? Hvenær upplifir þú mesta frelsið?

Friður

Hugurinn þinn er
rólegur og friðsæll eins og
spegilslétt stöðuvatn.
Þú æsir þig yfirleitt ekki og
öðrum líður vel
nálægt þér.

Hvað er friður? Hvað er það sem minnir þig á frið? Hvenær upplifir þú mestan frið?

Gleði

Þér finnst skemmtilegt
að vera til og átt auðvelt
með að upplifa gleði.
Þú brosir til heimsins og
heimurinn brosir á móti til þín.

Hvernig tilfinning er gleði? Ef þú gætir séð gleði, hvernig myndi hún líta út? Hvenær upplifir þú mesta gleði? Er hægt að vera glaður bara yfir því að vera til?

Heiðarleiki

Þú hefur heiðarlegt hjarta og
þorir að segja sannleikann
þó að það sé stundum erfitt.
Þú lýgur ekki og öðlast
traust annarra.

Hvað er heiðarleiki? Af hverju getur stundum verið erfitt að segja satt? Er alltaf betra að segja sannleikann?

Hugrekki

Þú hefur sannkallað ljónshjarta
sem er fyllt hugrekki.
Þegar þú finnur fyrir ótta
minnirðu þig á hugrekkið þitt
sem er sterkara en óttinn.
Þér eru allir vegir færir.

Hvað er hugrekki? Hvenær þurfum við á hugrekki að halda? Rifjaðu upp atvik þar sem þú eða einhver annar sýndi hugrekki.

Kærleikur

Þér þykir vænt um allt fólk,
dýr og náttúruna.
Þú lítur á aðra sem vini þína og
hugsar fallegar hugsanir
til annarra. Öðrum þykir
vænt um þig.

Hvað er kærleikur? Ef við gætum séð kærleikann, hvernig myndi hann líta út? Er hægt að finna kærleika gagnvart öllum, jafnvel þeim sem manni líkar ekki vel við?

Léttleiki

Þú átt auðvelt með að sjá
eitthvað sniðugt og skemmtilegt
í öllum aðstæðum.
Þú ert í góðu skapi og
það smitar frá sér.

Hvað er léttleiki? Ef þú gætir séð léttleika, hvernig væri hann á litinn? Hvernig hugsanir skapa þyngsli? Hvernig hugsanir skapa léttleika?

Sátt

Þó að sumt sé ekki
eins og þú vilt hafa það
ferðu ekki í vont skap heldur
hugsar frekar um eitthvað jákvætt.
Þér líður oftast vel.

Hvað er sátt? Ef við gætum séð sátt, hvernig væri hún á litinn? Er hægt að vera sáttur þó að eitthvað sé ekki eins og maður vill að það sé? Hvernig hugsanir koma þér í gott skap?

Sjálfsvirðing

Þér þykir vænt um þig og
átt auðvelt með að sjá
jákvæðu eiginleikana þína.
Þú reynir ekki að vera
eins og aðrir heldur þorir
að vera eins og þú ert.

Hvað er sjálfsvirðing? Hvaða jákvæðu eiginleika hefur þú? Hefur þú hugrekki til að vera þú sjálf/ur þó að þú sért öðruvísi en aðrir?

Staðfesta

Þegar þú setur þér markmið
gefstu ekki upp fyrr en
þú hefur ná því.
Þú hefur mikinn viljastyrk og
getur allt sem þú vilt.

Hvað er staðfesta? Hvaða markmið hefur þú í lífinu?

Styrkur

Þú hefur mikinn innri styrk
sem sést á því að þú lætur
erfiðleika ekki stöðva þig.
Þú gefst ekki upp og
missir ekki vonina.

Hvað þýðir það að hafa innri styrk? Ef þú gætir séð styrk, hvernig væri hann á litinn? Rifjaðu upp atvik þar sem þú eða einhver annar sýndi innri styrk.

Sveigjanleiki

Þú hefur mikinn sveigjanleika.
Þegar eitthvað breytist og
er öðruvísi en þú vilt hafa það
læturðu það ekki pirra þig
og heldur þínu striki.

Hvað er sveigjanleiki? Af hverju er sveigjanleiki mikilvægur eiginleiki? Hvað í náttúrunni minnir þig á sveigjanleika?

Traust

Þú ert góður vinur og það
er hægt að treysta þér.
Þú talar ekki illa um neinn og
það sýnir að þú hefur
mikinn innri styrk.

Hvað er traust? Hvað þarf til þess að aðrir treysti manni? Þekkir þú einhvern sem þú getur treyst fullkomlega? Geta aðrir treyst þér?

Umhyggjusemi

Þú hefur fallegt og
kærleiksríkt hjarta.
Þegar þú sérð að einhverjum
líður illa ertu alltaf
tilbúin/n að hjálpa og
ert sannur vinur.

Hvað er umhyggjusemi? Hvernig væri heimurinn ef allir væru umhyggjusamir? Hvað getur þú gert í dag til að sýna umhyggjusemi?

Velvilji

Í stað þess að láta aðra
fara í taugarnar á þér
sérðu það besta í öllum.
Aðrir vilja vera vinir þínir.

Hvað er velvilji? Átt þú auðvelt með að upplifa velvilja til allra? Finndu einn jákvæðan eiginleika hjá öllum í fjölskyldunni þinni og hjá vinum þínum. Finndu líka einn jákvæðan eiginleika hjá einhverjum sem þér líkar ekki vel við.

Virðing

Þú berð virðingu fyrir öllu fólki,
dýrum og náttúrunni.
Þú talar fallega og vingjarnlega
til allra og þannig hjálpar
þú öðrum að líða vel.

Hvað er virðing? Hvernig sýnir þú öðru fólki virðingu? Hvernig sýnir þú náttúrunni virðingu?

Þakklæti

Þú finnur þakklæti í hjartanu
fyrir allt það góða sem
lífið hefur gefið þér.
Þegar þú hugsar um allt
það jákvæða í lífi þínu
margfaldast gæfan þín.

Hvað er þakklæti? Hvað er það besta og jákvæðasta í þínu lífi?

Þolinmæði

Þú hefur mikla þolinmæði og
finnur yfirleitt ekki fyrir pirringi
þó að þú þurfir að bíða
eftir einhverju. Þegar aðrir
sjá þolinmæði þína verða þeir
líka rólegir og friðsælir.

Hvað er þolinmæði? Hvernig er þolinmæði jákvæður eiginleiki? Þekkir þú einhvern sem hefur mikla þolinmæði?

Örlæti

Hjartað þitt er stórt og gjafmilt
eins og útsprungið blóm.
Þú ert tilbúin/n að rétta
öðrum hjálparhönd og
færð þakklæti frá öðrum.

Hvað er örlæti? Ef hjartað þitt væri eins og blóm, hvernig blóm væri það? Hvað myndir þú vilja gefa öðrum?

Öryggi

Ef þú upplifir óöryggi eða kvíða
er gott að muna að þú átt
friðsælan leynistað innra með þér
þar sem þú ert alltaf
alveg örugg/ur.

Hvað er öryggi? Upplifir þú stundum óöryggi? Hvenær? Hvernig hugsanir hjálpa þér að upplifa öryggi?